Um uppskipunargjöld
Einhverra hluta vegna eru upskipunargjöld skipafélaganna öðru vísi en gerist og gengur, sérstaklega í Evrópskum samanburði. Hér er samanburður byggður á upplýsingum af vefnum 121114 um danskar, sænskar, þýskar, hollenskar og breskar hafnir frá Eimskip, Hamburg Sud, CMA CGM, MSC, OOCL og COSCO. Þetta eru hafnirnar sem skipafélögin sigla á. Vera má að svona verðlaggning tíðkist annars staðar í álfunni. Til samanburðar eru notaðar upplýsingar frá Dubai. Upplýsingar um THC í erlendum höfnum voru ekki sjáanlegar á vef Samskipa.
Þess má geta að síðan 2008 hafa orðið sáralitlar breytingar orðið á THC gjöldum alþjóðlegu félagana, frá -2% til 21%, en að jafnaði 13% á 6 árum.
Að auki eru greidd vörugjöld til Reykjavíkurhafnar sem miðað við 10 tonn í gámi gæti verið að jafnaði undir ISK 10,000 per TEU.
Hagkvæmni stærðarinnar á ekki alveg við í uppskipunargjöldum á Íslandi
Fyrst má telja að íslensku félögin telja rétt að rukka fyrir uppskipun á Íslandi fyrir hverja gámastærð, 20´, 40´og 40´HC. Þetta tíðkast ekki í evrópskum viðmiðunarhöfnum. Jafnvel furstarnir í Dubai sem hafa peningavit gera ekki greinarmun á 8“6´háum 40´gámi og 9“6´ gámi. En þar hafa menn gott eyra fyrir hvað kúnnin samþykkir og hvað samkeppni leyfir
Þessi háttur verður varla útskýrður með tilliti til kostnaðar, en vel má hugsa sér að íslensku félögin vilji ekki deila hagkvæmni stærðarinnar með kúnnunum og sérstaklega ekki ef kúnnin er annað flutningsfyrirtæki sem selur í samlestunargáma en þar munar miklu um að bjóða upp á 40´HC þar sem í samlestun (consolidation) byrja menn ekki að græða pening fyrr en gámurinn er vel lestaður og að þeir njóti sama gjalds fyrir 40´og 20´.
Þá sem er kannske merkilegra að THC fyrir 40´HC (meira en helmingur gámaflota heimsins er 40´HC) er samkvæmt verðskrá krafist 5 sinnum hærri upphæðar en meðaltal THC á viðmiðunarhöfnum (€868 - €166). Fyrir 20´gáma er hlutfallið hagstæðara, félögin rukka bara þrisvar sinnum meira en í viðmiðunarhöfnum.
Eimskip rukkar 90% meira en úthafsútgerðir.
Þá er hitt sem er mun alvarlegra, sem er verðið. Til einföldunar í þessum pistli hef ég notað meðaltalsgjöld Eimskips og Samskipa fyrir þjónustu á Íslandi. Svo ólíklega vill til að bæði félögin nota sama stuðulinn fyrir álag fyrir 40´HC.
Að jafnaði rukkar Eimskip 90% meira í uppskipunarjöld en viðmiðunarfyrirtækin, mestur er munurinn í Aarhus 240% hærra, þá Svíþjóð 213% hærra, í Immingham 192%, Hamborg 192% af verði viðmiðunarfyrirtækja og þá Rotterdam 162%.
Viðmiðun við Dubai
Komum aftur til Dubai þó það sé langt úr vegi skipa Samskipa og Eimskips. Þar rukka þeir sitthvort verðið fyrir innflutning og útflutning og eins og áður sagði hafa eitt verð fyrir 20´og annað fyrir 40´.
Dubai á í umtalsverðri samkeppni um innflutning og eru fraktirnar til Dubai þokkalegar. En öðru gegnir um útflutning sem er að stórum hluta iðnaðarvörur sem borga mjög litla frakt af því mikið fellur til af tómum gámum í Dubai. Því hafa útflytjendur minni möguleika til að fara annað og þurfa því að greiða hærri THC gjöld. Þar eru THC í innflutningi fyrir 20´gám 93% af meðalverði í Evrópu en 40´ gámur borgar 41% meira en 20‘. Íslensku félögin rukka 60% meira fyrir 40´en 20´og 79% meira fyrir 40´HC en 20´.
Tvær spurningar
1. Hver skyldi vera ástæðan fyrir að út og uppskipunargjöld í Reykjavík eru svo miklu hærri en erlendis?
2. En af hverju þurfa þeir sem flytja gáma til Íslands að borga 2.43 sinnum það sem borgað er fyrir sömu þjónustu annarra félaga í Aarhus, eða 1.62 sinnum meira í Rotterdam?
Hver sem ástæðan er, þá lítur þetta alls ekki vel út og væri sjálfsagt hið besta mál ef þessi gjöld yrðu færð nær kostnaðarverði.
Vel má hugsa sér að væri ekki tvíkeppni, heldur fleiri um hituna, að einhver svikist undan merkjum og birti á vefsíðu sinni gjöld sem væru nær kostnaði.
Ef um stýrða einokun væri að ræða með mikilli upplýsingagjöf og upplýstu samfélagi fraktkaupenda þá eru miklar líkur á öðruvísi afgreiðslugjöldum.
Mín niðurstaða er að fákeppnin skapi skrítið umhverfi þar sem menn leyfa sér að hafa verðskrár sem eru langt fyrir ofan viðmuðunarhafnir. Það er mjög líklegt að erlendu útgerðirnar hafi þokkalega álagningu á THC í flestum höfnum.
Stærstu kúnnarnir sem slegist er um fá væntanlega mikla afslætti, en minni kúnnar og þeir sem eru að byrja eða hugsa um að byrja, þeir þurfa að borga samkvæmt gjaldskrá (af hverju væru þær annars?). Þannig eykur fákeppni siglinga á mismunun í samkeppni í öðrum atvinnugreinum, innflutningi og útflutningi, þar sem þeir sem eru stórir í dag eru verndaðir frá samkeppni frá þeim sem ekki eru stórir.